Hálu flísarnar fjarlægðar

Á síðustu vikum hefur verið nokkuð um óhöpp þar sem fólk hefur dottið á flísalögðu gólfi nýju viðbyggingarinnar við Sundhöll Selfoss. Óhöppin hafa sum verið alvarleg.

Eftir að hafa farið yfir stöðu mála er það sameiginlegt mat Sveitarfélagsins Árborgar og JÁVERKS sem byggði húsið að við þetta verði ekki unað og því hefur verið leitað leiða til að auka öryggi þeirra sem fara þarna um.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að nú hafi verið tekin ákvörðun um að fjarlægja flísar af því svæði sem sundlaugargestir ganga um frá búningsklefa að innilaugum og að útgönguleið að útisvæði. Framkvæmdir hefjast á morgun, þriðjudaginn 16. febrúar og standa í um tvær vikur.

Í staðinn fyrir flísarnar verður sett efni sem er kallað „PlayTop“ og er gúmmí með hrjúfu yfirborði og mikilli vatnsleiðni, efni þetta er víða notað við sundlaugar og hefur gefið góða raun. Jafnframt verður vatnshalli aukinn þannig að vatn liggur síður á gólfum. Flísarnar sem fyrir eru uppfylla staðla um hálkuvarnir á sundlaugarsvæðum, en þrátt fyrir það hafa gestir fallið og meiðst.

Sundhöllinni verður ekki lokað á meðan á framkvæmdum stendur og reynt að láta þessar breytingar raska starfseminni sem minnst. Vonast er til að sundlaugargestir sýni því skilning að þurfa að nota útiklefa eða ganga óhefðbundna leið á milli búningsklefa og lauga á meðan unnið verður að breytingum. Litla innilaugin og saunaklefi verða lokuð á meðan á framkvæmdum stendur.

Það er sameiginleg ákvörðun sveitarfélagsins og JÁVERKS að ráðast í þessar breytingar með öryggi sundlaugargesta í fyrirrúmi og munu aðilar skipta kostnaði við breytingarnar á milli sín, en samkvæmt heimildum sunnlenska.is er hann um fjórar milljónir króna.

Fyrri greinÁrborg og Stokkseyri saman í riðli
Næsta greinÁrborgarar gefa Abel sektarsjóðinn