Hálsbrotnaði í bílveltu

Maðurinn sem lenti í alvarlegu umferðarslysi á Suðurlandsvegi á Sandskeiði að morgni föstudags hálsbrotnaði en mun ekki hafa lamast.

Maðurinn missti stjórn á jeppabifreið sinni í hálku með þeim afleiðingum að bíllinn fór útfyrir veg og valt nokkrar veltur.

Ökumaðurinn var einn í bifreiðinni og gat tilkynnt um slysið en ekki komist út af sjálfsdáðum. Sjúkrabílar og tækjabílar voru sendir frá Reykjavík, Selfossi og Hveragerði vegna þess að óljóst var um staðsetningu slyssins.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að tvímælalaust sé því að þakka að ekki fór verr að ökumaðurinn var með bílbelti og svo örugg og fagleg meðhöndlun sjúkraflutningamanna.