Halli umfram áætlun hjá Árborg

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir fyrstu níu mánuði ársins er rekstrarhalli Sveitarfélagsins Árborgar 2.393,8 milljónir króna eða rétt tæplega 2,4 milljarðar. Samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2022 gerði ráð fyrir halla upp á tæpa 2,2 milljarða og eru því frávik í aðalsjóði neikvæð um 229,1 milljónir króna.

Fjallað var um 9. mánaða rekstraruppgjör sveitarfélagsins á fundi bæjarráðs á dögunum og þar kom fram að staða sveitarfélagsins er erfið, líkt og hjá öðrum sveitarfélögum, í ljósi hækkandi verðbólgu og vaxta.

Líkt og sjá má í töflunni hér að neðan fær sveitarfélagið um 232 milljónir króna í skatttekjur umfram áætlun, sem er jákvætt. Á móti eru neikvæð frávik upp á um 263 milljónir í fjármagnsgjöldum og 214 milljónir í fræðslu- og uppeldismálum. Frávik annarra málaflokka eru mun lægri.

Vinna bæjarfulltrúa og starfsmanna við fjárhagsáætlun 2023 mun taka mið af þessari stöðu en í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að stefna nýrrar bæjarstjórnar sé að allir málaflokkar séu innan árlegrar fjárheimilda til framtíðar.

Samhliða vinnu við fjárhagsáætlun 2023 er unnið að 10 ára fjármálastefnu sveitarfélagsins og er stefnt að því að kynna hana á næstu vikum.

Fyrri greinFarþegar gista um borð í Herjólfi í Þorlákshöfn
Næsta grein„Spenntur að sjá framfarirnar“