Haraldur Júlíusson, eða Halli í Akurey, var heiðraður á 17. júní hátíðarhöldunum í Njálsbúð. Þær Halla Bjarnadóttir og Kristín Svandís Jónsdóttir færðu Haraldi blómvönd og platta með mynd af Akurey fyrir hans góðu störf í þágu samfélagsins, þá sérstaklega í Landeyjum.
Haraldur starfaði í sóknarnefnd Akureyjarkirkju í 51 ár og hafði umsjón með kirkjugarðinum að mestu í sjálfboðavinnu. Hann kenndi söng í barnaskólanum í Njálsbúð og stjórnaði kirkjukór Akureyjarkirkju í fjölda ára.
Haraldur var hógvær þegar hann tók við viðurkenningunni og sagði að starfið hefði verið ánægjulegt og væri hann þakklátur.
Frá þessu er greint á heimasíðu Rangárþings eystra.