Rekstrarhalli SASS minnkar

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Drög að ársreikningi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga 2022 voru kynnt á síðasta stjórnarfundi SASS en rekstrarafkoma samtakanna af reglulegri starfsemi var neikvæð um 6,6 milljónir króna á síðasta ári.

Til samanburðar var taprekstur á árinu 2021 upp á rúmlega 40 milljónir króna. Mestu munar um gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga samtakanna sem var ríflega 21 milljón árið 2022 en 54 milljónir árið 2021.

Samkvæmt efnahagsreikningi er bókfært eigið fé neikvætt um tæplega 45,5 milljónir króna í lok árs 2022.

Stjórn og framkvæmdastjóri staðfestu ársreikninginn á síðasta fundi sínum og verður formlega gengið frá honum með rafrænum undirritunum um miðjan maí.

Fyrri grein„Þetta mun breyta miklu fyrir viðskiptavini“
Næsta greinHeimir ráðinn skólastjóri í Stykkishólmi