Halldóra endurkjörin formaður

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir var endurkjörin formaður Bárunnar-stéttarfélags á aðalfundi félagsins á Selfossi í gærkvöldi.

Fullt var út úr dyrum á fundinum en stærsta málið sem lá fyrir honum var kosning um formann. Þar tókust á Halldóra og Vernharður Stefánsson, mjólkurbílstjóri. Þau fluttu báðar ágætar framboðsræður og síðan var gengið til kosninga. Niðurstaðan var sú að Halldóra var endurkjörin formaður til næstu tveggja ára með 40 atkvæðum gegn 27.

Einn stjórnarmaður gekk úr stjórn, Loftur Guðmundsson en í hans stað tekur Jón Þröstur Jóhannesson sæti í stjórninni en hann hefur verið varamaður í stjórn.

Í skýrslu formanns kom meðal annars fram að það fjölgar jafnt og þétt í félaginu og starfsemin er vaxandi. Mikil áhersla hafi verið lögð á að efla trúnaðarmannakerfi félagsins og skapa tengsl við vinnustaði og atvinnurekendur.

Rekstur félagsins er í miklum blóma og gefur félaginu aukið svigrúm í þjónustu sinni við félagsmenn. Í því ljósi lagði stjórn fram ákveðnar tillögur fyrir fundinn um breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs. Þar var ákveðið að bæta í ýmsa styrki og að auki kemur inn nýr liður varðandi tannlæknakostnað.

Einnig kom fram að félagið hugar að kaupum á einu orlofshúsi til viðbótar en mikil ásókn er í þessi hús og fer vaxandi. Stjórn Bárunnar hefur líka ákveðið að halda verði niðri til hagsbóta fyrir félagsmenn en verð á gistingu hefur ekki verið hækkað síðustu fjögur ár.