Halldór hlaut menningarverðlaunin

Halldór Sigurðsson, skólastjóri Grunnskóla Þorlákshafnar, hlaut menningarverðlaun Ölfuss 2011 en þau voru afhent við opnun afmælishátíðar Þorlákshafnar á miðvikudagskvöld.

Þetta er í fjórða sinn sem menningarverðlaunin eru veitt. Magnþóra Krisjánsdóttir, formaður menningarnefndar afhenti verðlaunin og nefndi í ræðu sinni að Halldór hefur hvatt börn og ungmenni til listsköpunar langt umfram það sem ætlast má til af skólastjórnanda.

Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga þar sem tónlist skipar oft stóran sess, hann hefur aðstoðað við uppsetningu á söngleik í tengslum við Tóna við hafið undanfarin ár og hann mætir yfirleitt á alla tónleika Tónlistarskólans sem er mikil hvatning fyrir nemendur.

Það var greinilegt að Halldór átti alls ekki von á viðurkenningunni en hann tók klökkur á móti henni og þakkaði vel fyrir sig.