Halla Tómasdóttir fékk 35,3% atkvæða í Suðurkjördæmi

Kjörstaður á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands, fékk flest atkvæði allra í Suðurkjördæmi, eins og reyndar í öllum öðrum kjördæmum landsins. Talningu í Suðurkjördæmi lauk rétt fyrir klukkan sjö í morgun.

Kjörsókn í Suðurkjördæmi var 79,6% en á kjörskrá voru 41.295 og alls greiddu 32.859 atkvæði.

Halla Tómasdóttir fékk 11.522 atkvæði eða 35,3%, þar á eftir kom Halla Hrund Logadóttir með 6.252 atkvæði eða 19,1%. Suðurkjördæmi er eina kjördæmið þar sem Halla Hrund hafði betur en Katrín Jakobsdóttir sem var með 6.091 atkvæði eða 18,6%.

Jón Gnarr hlaut 10% í Suðurkjördæmi, 3.280 atkvæði og 142 atkvæðum meira en heimamaðurinn Baldur Þórhallsson sem fékk 3.138 atkvæði eða 9,6%. Arnar Þór Magnússon fékk 1.936 atkvæði eða 5,9%.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir fékk 0,7% atkvæða í Suðurkjördæmi eða 231 atkvæði en aðrir frambjóðendur voru með minna en 0,2% atkvæða; Ástþór Magnússon með 76 atkvæði, Ásdís Rán Gunnarsdóttir með 58 atkvæði, Viktor Traustason með 44 atkvæði, Helga Þórisdóttir með 26 atkvæði og Eiríkur Ingi Jóhannsson með 21 atkvæði.

Fyrri greinEkki skipt um nafn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Næsta greinSmári stal sjómannadagsgleðinni frá Stokkseyringum