„Hálf súrrealískt tilfinning“

Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar og Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, á hótelinu í Jerúsalem. Ljósmynd/Aðsend

Það hefur varla farið framhjá neinum að stríð er hafið í Ísrael. Palestínsku Hamas-samtökin hófu árás í nótt og hefur um 5.000 flug­skeyt­um verið skotið frá Gazasvæðinu yfir til Ísra­el, í átt að al­menn­um borg­ur­um og bygg­ing­um.

Um níutíu Íslendingar eru nú staddir í Jerúsalem og eru stærstur hluti hópsins frá Suðurlandi. Þeirra á meðal eru bæði bæjarstjóri Árborgar, Fjóla Kristinsdóttir og sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Aldís Hafsteinsdóttir.

Blaðamaður sunnlenska.is hafði samband við Fjólu og heyrði í henni hljóðið. Hún var stödd á hótelinu ásamt eiginmanni sínum en þeim, ásamt öðrum erlendum ríkisborgurum, er óheimilt að fara af hótelinu.

„Við höfum það mjög gott og við upplifum okkur örugg. Hótelið er fínt og ekki yfir neinu að kvarta hjá okkur. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hversu skrítin tilfinning það er að vera staddur á hóteli í miðjum stríðsátökum. Það er hálf súrrealísk tilfinning ef ég á að segja eins og er,“ segir Fjóla.

Útsýnið út um hótelgluggann, þar sem reykur frá sprengingum sést vel. Ljósmynd/Fjóla St. Kristinsdóttir

20 km frá átakasvæðinu
Fjóla og ferðafélagar hennar sjá vel reykinn frá sprengjum sem eru skotnar niður af varn­ar­kerfi Ísra­els­manna. „Við erum að mér er sagt um 20 km frá átakasvæðum en við sjáum reykinn og heyrðum vel í árásunum í morgun. Við lentum í Tel Aviv í gærkvöldi og keyrðum til Jerúsalem þar sem við dveljum á hótelinu. Það var áætlað að vera hér í átta daga og ferðast um og skoða. Þórhallur Heimisson og Sigurður Kolbeinsson eru fararstjórar og það var margt spennandi planað. Við vorum ekki búin að skoða neitt, nema það sem við sáum á leiðinni til Jerúsalem.“

„Hér er að klárast vikulöng trúarhátið í dag og því var mikið af prúðbúnu fólki á ferli í gærkvöldi. Það fyrsta sem ég tók eftir var að það er fjölskyldufólk um allt og mikið af börnum hlaupandi um, sem mér fannst traustvekjandi í gær. Í dag heldur hópurinn sig á hótelinu enda útgöngubann en eins og ég sagði þá væsir ekki um okkur og ferðafélagarnir einstakir. Ég, eins og flestir, er auðvitað harmi slegin yfir þessum fréttum og vona að þessu linni sem fyrst, allra vegna,“ segir Fjóla að lokum.

Loft­varna­byrgi eru á hverri hæð á hót­el­inu og eftir sprengingarnar í morgun ákváðu margir Íslendinganna að fara þangað í varúðarskyni. Ljósmynd/Fjóla St. Kristinsdóttir
Fjöldi fólks bíður framhaldsins inni á hótelinu en erlendum ríkisborgurum er bannað að vera á götum úti. Ljósmynd/Fjóla St. Kristinsdóttir
Fjöldi langferðabíla fyrir utan hótelið. Ljósmynd/Fjóla St. Kristinsdóttir
Fyrri greinSætur sigur á Nesinu
Næsta greinGestirnir höfðu betur í spennuleik