Hálf þjóðin skoðaði gosið

Umferðartölur frá Vegagerðinni sýna aukningu um 40 þúsund bíla í gegnum Hvolsvöll frá 24. mars til 8. apríl. Þannig má áætla að yfir 150 þúsund manns hafi lagt leið sína í Rangárþing til að skoða eldstöðvarnar.

Þuríður H. Aradóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings eystra, segir að áður hafi verið áætlað að 60-70 þúsund manns hafi komið austur til að skoða gosið. „Sú tala var varlega áætluð þar sem mér þótti hún svo ótrúlega há. En nú þegar umferðartölur hafa verið teknar saman er raunin önnur. Um 40 þúsund bílar komu inn á svæðið umfram venjulega umferð hérna. Ég reikna ekki með að margir hafi verið einir í bíl, ef við segjum að í hverjum bíl hafi verið 3-4 þá eru þetta 140-160 þúsund manns. Og svo eru það að sjálfsögðu allar rúturnar líka,“ sagði Þuríður í samtali við sunnlenska.is

Samkvæmt upplýsingum frá olíufélögunum sem starfrækja dælustöðvar og verslanir á Suðurlandi varð töluverð aukning í verslun frá Reykjavík austur á Hvolsvöll í tengslum við gosumferðina.

Fjöldi bíla í gegnum Hvolsvöll frá 24. mars til 8. apríl er 55.969 og miðað við venjulega umferð er viðbót vegna gossins 39.458 bílar. Stærsti dagurinn var laugardagurinn 28. mars, þegar 6.957 bílar óku í gegnum Hvolsvöll.

Fyrri greinSelfyssingar stefna til Svíþjóðar
Næsta greinStærri vagn á leið 51