Hálendisvakt björgunarsveitanna hefst í dag

Í dag halda björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á sína árlegu hálendisvakt en þetta er fjórða árið sem hún er rekin.

Á meðan á vaktinni stendur, frá 25. júní til 15. ágúst, verða fjórar björgunarsveitir staddar á hálendinu þar sem þær leiðbeina og aðstoða ferðamenn og sinna leit og björgun.

Fyrstu vikuna verður Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík á Kjalvegi og Björgunarsveitin Gerpir, Neskaupsstað, að Fjallabaki. Fleiri sveitir bætast í hópinn í næstu viku þegar opnað verður inn á Sprengisand og svæðið norðan Vatnajökuls. Alls taka 27 björgunarsveitir þátt í hálendisgæslu í sumar en verkefnið er rekið alfarið með sjálfboðaliðum.

Undanfarin ár hefur straumur ferðafólks á hálendi Íslands aukist ár frá ári. Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að nokkuð hafi verið um óhöpp og slys og árlega verða banaslys á fjöllum. Að sama skapi aukist verkefni björgunarsveita á svæðinu.

Sem dæmi má nefna að árið 2008 voru skráðar aðstoðarbeiðnir 367 en á síðasta ári voru þær 930 talsins. Helstu verkefnin voru að aðstoða fólk við ár og vöð. Einnig var nokkuð um að grennslast væri eftir ferðamönnum sem skiluðu sér ekki á tilteknum tíma í skála, aðstoða ferðamenn með bilaða bíla og sprungin dekk. Mikið var um að björgunarsveitarfólk væri að segja ferðafólki til um færð og ferðaleiðir.

Fyrir utan fræðslu og leiðbeiningar veittu sjálfboðaliðar björgunarsveitanna slösuðum og veikum fyrstu hjálp, og sinntu útköllum sem bárust frá Neyðarlínunni.

Fyrri greinÓlafur Áki rekinn úr Sjálfstæðisflokknum
Næsta greinBlómahelgin hafin