Háhyrningur í höfninni á Stokkseyri

Háhyrningur hefur verið á sundi í höfninni á Stokkseyri eftir hádegi í dag. Fjöldi fólks er á bryggjunni og fylgist með.

Það var laust eftir klukkan eitt sem vart varð við háhyrninginn í höfninni. “Hann er líklega eitthvað veikur eða særður, að minnsta kosti er hann mjög áttavilltur og ekkert fararsnið á honum,” sagði Björn Ingvi Bjarkason, sem staddur er á Stokkseyrarbryggju.

“Það er fullt af fólki hérna enda er magnað að sjá svona stóra skepnu í návígi,” sagði Björn ennfremur en hann sendi sunnlenska.is símamynd af vettvangi. “Þetta er fínt fyrir okkur hér á Stokkseyri, mikil umferð og nóg að gera í sjoppunni. Þetta er svipuð stemmning og þegar búrhvalinn rak hérna á land í mars í fyrra.”

Ekki er ljóst hvert framhald málsins verður, hvort háhyrningurinn drepist í fjörunni eða hvort hann nái að synda út á síðdegisflóðinu. Stokkseyringar og gestir þeirra fylgjast í það minnsta spenntir með.

UPPFÆRT KL. 22:31: 1. APRÍL!

Fyrri greinBeltin björguðu er bílstjórinn sofnaði
Næsta greinJón Daði skoraði, Guðmundur lagði upp mark