Hagaland kaupir slökkvistöðina

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum kauptilboð Hagalands ehf í slökkvistöðina á Selfossi. Hagaland er dótturfyrirtæki Hlöllabáta á Selfossi.

„Þetta eru í raun þrjár lóðir og það stendur til að byggja nýjan Hlöllastað á lóðinni næst N1. Við erum á bráðabirgðaleyfi þar sem við erum við Tryggvatorg en þetta er framtíðarrekstur og nýji staðurinn verður vígalegur, bæði með bílalúgu og veitingasal,” sagði Sverrir Rúnarsson, eigandi Hlöllabáta á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Sverrir segir að ætlunin sé að standsetja slökkvistöðina og finna leigjendur til að fara þar inn með rekstur. „Húsið er 500 fm og býður upp á ýmis tækifæri. Því verður mögulega skipt upp í nokkra hluta og leigt út til verslunar- og þjónustuaðila,” sagði Sverrir.

Bæjarráð hafði áður samþykkt 40 milljón króna tilboð Melhæðar sf í lóðina en Melhæð féll frá kaupunum samkvæmt fyrirvara sem fylgdi tilboði þeirra.

Tilboð Hagalands ehf. hljóðar upp á 42,5 milljónir króna og eru 12 milljónir greiddar við afhendingu en eftirstöðvarnar á skuldabréfi til fimm ára.

Slökkvistöðin lýkur núverandi hlutverki sínu í vor þegar Brunavarnir Árnessýslu flytja í nýju Björgunarmiðstöðina.