Hafna lokun slökkvistöðvarinnar í Reykholti

Hugmyndir eru uppi hjá Brunavörnum Árnessýslu (BÁ) að loka slökkvistöðinni í Reykholti í Biskupstungum og byggja nýja stöð við Iðjuslóð, nálægt nýja hringtorginu á Flúðum í Hrunamannahreppi.

Fulltrúar BÁ mættu á síðasta fund sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og kynntu þessar hugmyndir.

Í bókun sveitarstjórnar segir að hún geti ekki fallist á að slökkvistöðinni í Reykholti yrði lokað. Staðsetning slökkvistöðvar í Reykholti sé mikilvægur öryggisþáttur fyrir íbúa, dvalargesti og ferðamenn á svæðinu.

Sveitarstjórnin samþykkti að fela oddvita, sveitarstjóra og sviðsstjóra þjónustu- og framkvæmdasviðs að hefja viðræður við BÁ um tilflutning á aðstöðu BÁ í Reykholti innan núverandi húsbyggingar við Bjarkarbraut þar sem slökkviliðið er til húsa ásamt Björgunarsveit Biskupstungna.

Sveitarstjórnin telur að sú breyting myndi fela í sér stórbætta aðstöðu fyrir BÁ og uppfylla þau skilyrði sem þarf til eflingar slökkvistöðvarinnar í Reykholti.

Fyrri greinSinueldur í dýragrafreit
Næsta greinSinueldar ógnuðu húsum