Hafa sent 127 pakka af prjónavörum til Hvíta-Rússlands

„Við höfum verið að hittast annan hvern fimmtudag og prjóna og hekla saman, einnig höfum við unnið heima hver í sínu lagi. Í síðustu viku fórum við í að pakka og gengum frá 34 ungbarnapökkum en alls höfum við sent frá okkur 127 pakka frá áramótum.“

Þetta segir Aðalheiður Sigurðardóttir, ein af hressu konunum á Hellu og Hvolsvelli, sem koma saman til að vinna þetta ákveðna sjálfboðaliðaverkefni fyrir Rauða krossinn.

Fötin fara til úkraínsks flóttafólks í Hvíta-Rússlandi.

„Við erum á öllum aldri og njótum þess að hittast og hlæja saman um leið og við látum gott af okkur leiða,“ bætir Aðalheiður við.