Sumarið 2017 og einnig 2018 fóru Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Selfossi, og Ólöf Erla Halldórsdóttir, kona hans, um landið og merktu miltisbrunagrafir, en þær eru um allt land.

Alls merktu þau 152 grafir á landinu, þar af eru 44 grafir á 32 stöðum á Suðurlandi.

Árið 2004 drápust þrír hestar á Vatnsleysuströnd úr miltisbrandi, en þar var 130 ára gömul gröf sem ágangur sjávar hafði raskað og smit borist í bithaga. Sigurður hófst þá handa við að kortleggja þá staði þar sem vitað var að miltisbrandsgrafir voru og jafnframt leita heimilda um gleymdar grafir.

Miltisbrunagrafir eru tifandi tímasprengjur
„Ég fór að undirbúa merkingar á gröfunum árið 2004. Þá hafði ég verið á ráðstefnu í Svíþjóð, þar sem fjallað var um miltisbrand í villtum dýrum. Þar hitti ég menn frá Suður-Afríku, sem sögðu mér að þeir þekktu dæmi þess að miltisbrunasýking hefði lifað í 200 ár. Mér varð þá ljóst að hér á landi væri miltisbrunasýking frá skepnum, sem grafnar hefðu verið í jörðu um allt land, eins og tifandi tímasprengjur,“ segir Sigurður Sigurðarson í viðtali við Bændablaðið.

Frétt Bændablaðsins.