Hafa játað að hluta

Játning liggur að hluta til fyrir í vopnaða ráninu sem framið var í Fossheiði á Selfossi um síðustu helgi.

Þrír ungir menn eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins og hafa þeir játað hluta sakargiftanna sem bornar eru á þá, það að hafa farið inn í húsið og tekið þaðan verðmæti.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að rannsókninni miði áfram og lögreglan hafi nú alla þræði málsins í hendi sér. Sakborningarnir hafa verið yfirheyrðir í vikunni en á mánudag mun liggja fyrir hvort farið verði fram á lengra gæsluvarðhald yfir þeim. Núgildandi gæsluvarðhaldsúrskurður rennur út kl. 16 á mánudag.

Mennirnir eiga allir langan sakaferil að baki og tveir þeirra eru á reynslulausn. Þeir voru færðir fyrir dómara í Héraðsdómi Suðurlands í dag þar sem þess var krafist að reynslulausnin verði dæmd upp. Dómari mun kveða upp úrskurð um það á mánudag og fallist hann á kröfuna þá munu mennirnir fara aftur bak við lás og slá vegna fyrri dóma.

Sakborningarnir eru ungir að aldri, fæddir 1986, 1988 og 1991.