Hafa gefið tæpar 40 milljónir króna til góðra málefna

Dagný Dögg Sigurðardóttir, verslunarstjóri Nytjamarkaðarins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nytjamarkaðurinn á Selfoss fagnar 10 ára starfsafmæli um helgina en á morgun, laugardag, verður uppboð og ýmsar uppákomur á staðnum.

„Í dag fengum við nemendur Tónlistarskóla Árnesinga í heimsókn og á morgun verður afmælisuppboð kl. 12:00 þar sem allskonar dýrgripir verða boðnir upp, þar á meðal tveir snjótittlingar eftir Guðmund frá Miðdal og styttan Jónsmessunótt eftir Ásmund Sveinsson, Iittala glös, ýmis leikföng og allskonar skemmtilegar vörur,“ segir Dagný Dögg Sigurðardóttir, verslunarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Dagný segir að fólk hafi alla tíð verið duglegt að gefa vörur á Nytjamarkaðinn en líka duglegt að versla.

„Ég er búin að vera hér í fimmtán mánuði og það hefur ekki liðið einn dagur þar sem ekki hafa komið fimm manneskjur eða fleiri með vörur til okkar. Við erum virkilega þakklát fyrir það. Markaðurinn byggist auðvitað á því að fólk gefi vörur til okkar. Ef það væri ekki þannig þá myndi þetta ekki ganga,“ segir Dagný við en Nytjamarkaðurinn hefur á undanförnum árum gefið tugi milljóna til góðra málefna.

„Á síðustu tíu árum erum við búin að gefa frá okkur tæpar 40 milljónir króna, mest hér á Suðurlandi. Sextíu prósent fer til mála hér innanlands, við höfum styrkt fólk sem hefur misst ástvini, styrkt sjúkrahúsið með leikföngum, styrkt Björgunarmiðstöðina, Sjóðinn góða og Rauða krossinn svo eitthvað sé nefnt. Við höfum líka hjálpað fólki sem er illa statt fjárhagslega með vörur, til dæmis konur sem eru að koma úr erfiðum samböndum og eru að byrja upp á nýtt, við höfum hjálpað þeim með húsgögn og fleira,“ segir Dagný.

„Fjörutíu prósent fara í erlent starf og þar hefur stærstur hlutinn farið til Búrkína Fasó, í skóla sem er verið að byggja þar. Við höfum verið opin fyrir því að styrkja aðra erlendis, en við viljum vita að peningarnir séu að fara á staði sem við getum treyst.“

Á afmælishátíðinni verður boðið upp á kaffi og afmælistertu fyrir gesti og gangandi til þess að þakka fyrir síðustu tíu ár og klukkan 15:00 ætla Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir að stíga á stokk og spila og segja sögur. Margvísleg tilboð verða í boði allan daginn.

Nemendur og kennarar úr Tónlistarskóla Árnesinga tróðu upp á Nytjamarkaðnum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinElín ráðin mannauðsstjóri Hörpunnar
Næsta greinÞankar við slaghörpuna – útgáfuhóf í Salnum