Hafa áhyggjur af óeiningu hjá D-listanum

Bæjarfulltrúarnir Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Helgi S. Haraldsson, B-lista sendu í gærkvöldi frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja óformlegar samræður hafa farið fram um myndun nýs meirihluta í Árborg.

„Undirritaðir lýsa yfir miklum áhyggjum vegna þeirrar óeiningar sem virðist ríkja innan meirihluta sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu Árborg. Mikilvægt er að stjórn sveitarfélagsins sé í föstum skorðum, skilvirkni og eining ríki innan hóps kjörinna bæjarfulltrúa. Undanfarna daga hafa átt sér stað óformlegar samræður um hugsanlega myndun nýs meirihluta með aðkomu minnihlutans, vegna þessarar ósamstöðu sem virðist ríkja innan meirihlutans,“ segja þeir Eggert og Helgi í yfirlýsingunni.

„Undirritaðir munu, jafnt nú sem hingað til, ekki skorast undan þeirri ábyrgð kjörinna bæjarfulltrúa að hafa veg sveitarfélagsins og íbúa þess í fyrirrúmi.“

Fyrri greinFéll af fjórhjóli
Næsta greinHlaupið í naflanum