Hafa áhyggjur af minnkandi tærleika vatnsins

Rannsóknir benda til þess að tærleiki í Þingvallavatni sé að minnka og hafa menn áhyggjur af þessari þróun.

Að sögn Ólafs Arnar Haraldssonar, þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum, benda nýjar rannsóknir til þess að breytingar hafi átt sér stað á vatninu, hvað sem veldur, og tærleiki þess sé ekki sá sami og áður.

Þegar kemur að skýringum hafa menn horft til aukins þörungablóma sem meðal annars má rekja til aukinnar mengunar. Ekki liggur ljóst fyrir hvaðan mengun kemur í vatnið en augu manna hafa beinst að umferð, frárennsli og áburði. Hafa jafnvel grunsemdir beinst að barrtrjánum við vatnið í þessu sambandi.

,,Tærleiki vatnsins er eitt þeirra atriða sem helst prýða þjóðgarðinn. Við hljótum að spyrja okkur hvað við viljum með þessa einstöku perlu en það er enginn vafi að Þingvallavatn er eitt áhugaverðasta stöðuvatn í heimi,” sagði Ólafur í samtali við Sunnlenska.

Fyrr í sumar birtust tölur sem sýndu að umferð um Þjóðgarðinn hafi ríflega tvöfaldast og fari nú á milli 7.000 og 8.000 bílar í gegnum Þingvelli á helstu umferðarhelgunum. Að sögn Ólafs hafa tölurnar orðið til þess að Þingvallanefnd er ákveðin í að fá meiri upplýsingar um meinta mengun frá umferð. Hefur nefndin óskað eftir að þeir þættir verði vaktaðir.

Fyrri greinAndri Freyr framlengir við Selfoss
Næsta greinBílvelta við Selfoss