Hafa afþakkað samningaviðræður við Árborg

Stjórnendur Sólheima í Grímsnesi hafa ekki þegið boð sveitarfélagsins Árborgar um samningaviðræður.

Árborg tekur við málefnum Sólheima þegar þjónusta við fatlaða færist frá ríki til sveitarfélaga um áramót. Í gær kynnti framkvæmdastjórn Sólheima að sagt yrði upp samningi við fatlaða á svæðinu ef ekki yrði fallið frá þessum áformum.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar segir stjórnendur Sólheima hafa afþakkað samningaviðræður við sveitarfélagið. Ásta segir að hún hafi fyrir hönd sveitarfélagsins óskað eftir viðræðum við fulltrúa Sólheima um miðjan nóvember, en þeir hafi til þessa afþakkað það.

43 fatlaðir búa nú á Sólheimum og starfsemin fær um 270 milljónir króna árlega úr ríkissjóði. Ásta segir að það sé gert ráð fyrir sama fjárframlagi til þessarar starfsemi á næsta ári og á þessu ári.

Framkvæmdastjóri Sólheima telur að Árborg hafi ekki burði til að taka við hlutverki ríkisins í málefnum fatlaðra á svæðinu. Ásta vísar þessu á bug.

Hún segist telja að sveitarfélögin á landinu séu fullfær um að taka við þessari þjónustu og sveitarfélögin á Suðurlandi standi saman að þessari þjónustu, 13 talsins. Þau hafi unnið mikið undirbúningsstarf og hún telji þau í stakk búin til að taka við þessu.

Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV