Hafa þrefaldað starfsmannafjöldann

Seiðaræktun hefur gengið vel hjá fyrirtækinu Ísþór ehf. í Þorláks­höfn og er stefnt að því að senda seiði til áframhaldandi eldis vestur á firði nú í júní.

Sömuleiðis hafa seiði verið seld til Færeyja og er ætlunin að afhending þeirra hefjist í ágúst.

Ísþór er í eigu Fjarðalax ehf. sem er að efla verulega kvíaeldi sitt á Vestfjörðum og hefur þess vegna orðið talsverð aukning á starf­semi félagsins í Þorlákshöfn. Jafnvel meira en stefnt var að að sögn Höskuldar Steinarssonar, fram­kvæmdastjóra félagsins.

Hjá félaginu vinna nú 11 til 12 manns í Þorlákshöfn en voru fjórir síðasta haust. Félagið hefur ráðið tvo iðnaðarmenn til starfa vegna endurbóta á húsakosti og þá var nýlega gengið frá mönnun á nætur­vakt sem hafði í för með sér ráðn­ingu á nokkrum starfsmönnum.

Félagið er með áframeldi í sjókvíum í Tálknafirði og stefnir að því að hefja sjókvíaeldi í Arnar­firði á þessu ári en félagið elur upp lax til slátrunar þar. Allt þetta mun styrka seiðaeldisstarfsemina í Þor­láks­höfn en þar eru nú um þrjár milljónir seiða. Félagið hefur ekki treyst sér til að nota stærstu kvíarnar til þessa en ef fer sem horfir gæti komið til þess síðar.

Á síðasta ári nýtti Fjarðalax kaup­­rétt sinn að fiskeldisstöð Fisk­eyjar að Nesbraut 25 í Þorlákshöfn eins og heimilt var samkvæmt leigu­samningi milli félaganna. Þá hófust umtalsverðar endurbætur á eldisstöðinni og hefur þeim verið haldið áfram á þessu ári.

Fyrri greinÚtlendingar róa meira
Næsta greinHlynur á nýju vallarmeti