Hæsta tré landsins 70 ára og nálgast 30 metra

Björn Traustason stendur með mælitækin við hæsta tré landsins, sitkagrenið sjötuga á Kirkjubæjarklaustri sem nú mælist 28,7 metrar á hæð. Ljósmynd: Ólafur St. Arnarsson

Hæsta tré landsins er 70 ára á þessu ári og á nú aðeins eftir að vaxa rúman metra til að ná 30 metra hæð. Tré hafa ekki náð þessari hæð á Íslandi frá því að stórvaxnar trjátegundir þrifust á landinu fyrir milljónum ára.

Tréð stendur á Kirkjubæjarklaustri og mældist 28,7 metrar á hæð nú fyrr í vikunni. Undanfarin ár hefur þetta tré hækkað um allt að hálfan metra á hverju ári og ef það vex áfram áfallalaust næstu árin ætti það að ná þrjátíu metra hæð innan fárra ára.

Þeir Björn Traustason og Ólafur St. Arnarsson, sérfræðingar á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, hafa unnið að skógmælingum á Suðausturlandi undanfarna daga og komu þá við í þjóðskóginum á Kirkjubæjarklaustri til að slá máli á hæsta tré landsins sem vitað er um, sitkagreni sem gróðursett var 1949. Skógmælingaflokkar Skógræktarinnar hafa lagt sig eftir að mæla þetta tré árlega um þetta leyti árs enda magnast spennan eftir því sem hæð trésins nálgast 30 metra.

Gerðar voru tíu mælingar á trénu þriðjudaginn 3. september og meðaltal þeirra gaf að sögn Björns 28,65 metra hæð. Þvermál trésins mældist hins vegar 47,6 sentímetrar í brjósthæð.

Frá þessu er greint á heimasíðu Skógræktarinnar

Fyrri greinÞoldi ekki kristinfræði í grunnskóla
Næsta greinRammvilltur göngumaður í Þórsmörk