Hækkandi rafleiðni í Múlakvísl

Hlaup í Múlakvísl í október 2019. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Síðustu daga hefur rafleiðni í Múlakvísl farið hægt vaxandi og talið er að jarðhitavatn undan Mýrdalsjökli sé að leka í ána.

Vegna jarðhita á ákveðnum svæðum undir jöklinum safnast saman vatn undir sigkötlum í jöklinum en að lokum finnur vatnið sér leið þaðan og út í jökulárnar. Nokkuð algengt er að það gerist að sumri til þegar leysing á jöklinum hefur tekið við sér.

Vatn hljóp úr öllum helstu sigkötlum á vatnasviði Múlakvíslar í fyrra og því ekki búist við því að uppsafnað vatn sé óvenju mikið á svæðinu.

Ferðamenn varist gasmengun
Gasmengum getur fylgt atburðum sem þessum, sérstaklega nálægt jökuljaðrinum við upptök árinnar. Veðurstofunni hefur þegar borist tilkynningar frá vegfarendum á svæðinum um aukna brennisteinslykt. Það er því mikilvægt að ferðamenn á svæðinu við austanverðan Mýrdalsjökul séu meðvitaðir um hættuna á mögulegri gasmengun, sérstaklega í lægðum í landslagi, og fari að öllu með gát.

Fyrri greinSpennandi og mjög vel unnin vinningstillaga
Næsta greinEfnilegir krakkar í fjálsíþróttasumarbúðum á Selfossi