Hægt að kaupa veglegan þráðlausan búnað fyrir sömu upphæð og sektina

Lögreglan við Lómagnúp. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Lögreglan á Suðurlandi kærði fjóra ökumenn í liðinni viku fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar.

Sektin við slíku er 40 þúsund krónur og er hægt að kaupa sér veglegan handfrjálsan búnað fyrir þá upphæð.

Vel fylgst með þungatakmörkunum
Þrír ökumenn reyndust með of þungan farm á flutningabifreiðum sínum við vigtun þeirra. Vegna hlýindakafla í liðinni viku voru settar á þungatakmarkanir á tilteknum vegum samkvæmt ákvörðun Vegagerðar og því var sérstaklega fylgst með því að eftir eftir þessum takmörkunum væri farið.

Þrír ökumenn voru sektaðir vegna þess að ljósabúnaður bifreiða þeirra reyndist í ólagi.

Sektargreiðslur 3,5 milljónir króna í vikunni
Heildarupphæð álagðra sekta í umdæminu í liðinni viku þegar eingöngu er litið til þeirra mála sem lokið er, eða heimilt að ljúka á vettvangi með greiðsluseðli nemur rúmlega 3,5 milljónum króna. Alls standa 56 brot  að baki þessum sektum, 32 aðilar með íslenska kennitölu en 24 erlendir ferðamenn.

Fyrri greinDagur Fannar Íslandsmeistari í sjöþraut
Næsta greinFjögur hálkuslys í síðustu viku