Hægist á íbúafjölgun í Árborg

Selfoss fyrir miðri mynd. Ljósmynd/Steinar Guðjónsson

Verulega hefur hægst á fjölgun íbúa í Árborg síðustu mánuði eftir að sveitarfélagið rauf 10.000 íbúa múrinn í nóvember síðastliðnum.

Á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 1. apríl 2020 fjölgaði íbúum um 32 eða 0,3% og eru þeir nú 10.087 talsins. Á síðasta ári fjölgaði um rúmlega 1 íbúa á dag í Árborg, eða 40 íbúa í hverjum mánuði þegar mest lét.

Mesta fjölgunin á Suðurlandi frá desember til apríl er hins vegar í Mýrdalshreppi. Þar hefur íbúum fjölgað um 42, eða 5,9%. Íbúar Mýrdalshrepps voru 759 þann 1. apríl síðastliðinn.

Sömuleiðis varð mikil prósentufjölgun í Ásahreppi, þar sem fjölgaði um 13 íbúa eða 5,2%. Áshreppingar eru 264 talsins. Í Skaftárhreppi fjölgaði um 27 íbúa eða 4,3% og þar búa nú 653 íbúar.

Fækkun hefur orðið í tveimur sveitarfélögum á þessu sama tímabili, frá 1. desember til 1. apríl. Í Ölfusi hefur fækkað um tvo íbúa eða -0,1% og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur fækkað um einn íbúa, eða -0,2%.

Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um íbúafjölda eftir sveitarfélögum.

 

Fyrri greinHvergerðingar ráða grjótharðan garðyrkjufulltrúa
Næsta greinBílabíó á Selfossi á laugardag