Hádegisfyrirlestur um hjartasjúkdóma

Hádegisfyrirlestrar í þekkingarsetrinu Fjölheimum á Selfossi halda áfram í vetur en fyrsti fyrirlesturinn verður fimmtudaginn 24. september milli kl. 12 og 13.

Í þetta skipti munu hjúkrunarfræðingar sem útskrifuðust frá Háskólanum á Akureyri í vor fjalla um lokaverkefni sitt, þar sem rannsakaðir voru hjarta- og æðasjúkdómar.

Í erindinu munu hjúkrunarfræðingarnir Gerður Sif Skúladóttir, Jóna Sif Leifsdóttir, Kristjana Sigurveig Sveinsdóttir og Sunna Björg Bjarnadóttir kynna helstu niðurstöður verkefnisins.

Hjarta- og æðasjúkdómar eru ein helsta dánarorsök karla og kvenna í heiminum í dag. Í rannsókn þeirra var aðallega fjallað um kransæðastíflu og megin áhersla lögð á konur með kransæðastíflu en í gegnum tíðina hefur athyglinni verið beint frekar að körlum. Ástæður þess eru m.a. taldar vera að konur greinast seinna á lífsskeiðinu og birtingarmyndir einkenna þeirra eru oft óljósari. Hugmyndin að verkefninu kviknaði eftir að íslensk kona, á besta aldri, lést af völdum kransæðastíflu.

Sem fyrr verður boðið uppá léttan hádegisverð með fyrirlestrinum á vægu verði og því eru þátttakendur beðnir að skrá sig með tölvupósti á fjolheimar@gmail.com eða í síma 560 2030.

Í Fjölheimum er rekin fjölbreytt starfsemi og dag hvern leggur fjöldi fólks leið sína þangað til að afla sér þekkingar á ýmsum sviðum og breiðum grunni.

Allir þeir aðilar sem Fjölheima byggja starfa í þágu sunnlensks samfélags og má finna upplýsingar um þá á heimasíðu þekkingarsetursins.

Fyrri greinJötunheimar fengu hvatningarverðlaun Lubba
Næsta greinArna spyr um gúmmíkurlið