Hæstiréttur staðfesti lögbann á innheimtu

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Suðurlands um lögbann á innheimtu Landeigendafélags Geysis á aðgangseyri af ferðamönnum inn á hverasvæðið við Geysi í Haukadal.

Í dómnum kemur fram að fé­lagið hafi með innheimtunni brotið á rétt­ind­um rík­is­ins sem meðeig­anda að svæðinu enda hafi fé­lagið verið byrjað að inn­heimta gjaldið áður en lög­bannið var samþykkt.

Héraðsdómur komst að þessari niðurstöðu í október á síðasta ári en landeigendafélagið áfrýjaði dómnum.

Í dómsorði Hæstaréttar kemur fram að héraðsdómur skuli vera óraskaður og landeigendafélaginu er gert að greiða íslenska ríkinu eina milljón króna í málskostnað fyrir Hæstarétti, og bætist það við 800 þúsund króna málskostnað í héraðl.

Í fréttatilkynningu frá landeigendafélaginu, sem send var fjölmiðlum síðdegis í dag, segir að landeigendur hafi ítrekað leitað eftir samstarfi við ríkið, meðeiganda sinn, um verndun og uppbyggingu svæðisins. Til þess að leiða ágreininginn til lykta hafa landeigendur boðist til að kaupa hlut ríkisins og hafa tryggt fjármögnun kaupanna sem og framkvæmdir í samræmi við verðlaunatillögu um hönnun og uppbyggingu svæðisins. Ennfremur segir í tilkynningunni að dómur Hæstaréttar leysi á engan hátt úr þeim ágreiningi sem verið hefur á milli landeigenda og ríkisins um áratuga skeið.

Fyrri greinLandsvirkjun stækkar Búrfellsvirkjun um 100 MW
Næsta greinSelfoss tapaði í Grafarvogi