Hæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms í sorpútboðsmálinu

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Suðurlands í máli Gámaþjónustunnar hf gegn Sveitarfélaginu Árborg og vísað málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Í febrúar dæmdi Héraðsdómur Suðurlands Sveitarfélagið Árborg til að greiða Gámaþjónustunni hf. rúmar 18,6 milljónir króna með vöxtum og 5,5 milljónir króna málskostnað vegna ákvörðunar sveitarfélagsins að hafna öllum tilboðum í sorpútboði árið 2011.

Þáverandi meirihluti hafnaði tilboðum frá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu á sínum tíma og gaf þá skýringu að annmarkar hefðu verið á útboðinu – því hefði verið hætt við það. Gámaþjónustan, sem átti hagkvæmasta tilboðið, taldi að ákvörðun Árborgar hefði verið ólögmæt og að sveitarfélaginu hefði verið skylt að semja við fyrirtækið.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi komið fram í málinu að forsendur fyrir útboðinu hafi brostið og að sveitarfélagið hafi brotið gegn ákvæðum laga um opinber innkaup. Sveitarfélagið áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar.

Héraðsdómara var ófært að fjalla um ágreiningsatriðin
Í dómi Hæstaréttar, sem féll í dag, kemur fram að telja yrði að Ragnheiði Thorlacius, héraðsdómara, hafi verið ófært að fjalla nægilega um ágreiningsatriði málsins á grunni almennrar þekkingar sinnar, menntunar eða lagaþekkingar, og hefði verið þörf á sérkunnáttu til að leysa úr málinu. Hefði því verið nauðsynlegt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á gögn málsins.

Þar sem það hefði ekki verið gert var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ása Ólafsdóttir lögmaður.

Fyrri greinBíóhúsið Selfossi opnar í kvöld
Næsta greinAlexis Kiehl í Selfoss