Hættustigi lýst yfir á Suðurlandi

Eftir stöðufund aðgerðarstjórnar Almannavarna í umdæmi Lögreglustjórans á Suðurlandi, sem haldinn var í stjórnstöð a Hellu, var ákveðið að leggja til við Ríkislögreglustjóra að færa aðgerðir vegna yfirstandandi óveðurs af óvissustigi á hættustig.

Óveður það sem spáð var er nú að ganga inn á landið og orðið mjög hvasst syðst í umdæminu.

Þannig mældist 28 m/sek meðalvindur á Vatnsskarðshólum kl. 16:00 og meðsta vindhviða þar 43 m/sek. Á sama tíma mældist 25 m/sek meðalvindur við bæinn Steina undir Eyjafjöllum og á Fagurhólsmýri mældist 30 m/sek meðalvindur kl. 17:00.

Sem fyrr er fólk hvatt til að vera ekki á ferð að nauðsynjalausu.

Skilgreining á hættustigi: Ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig.

Fyrri greinBúið að loka Hellisheiði og Þrengslum
Næsta greinFréttir af veðri