Hættulegar snjóhengjur í Veiðivötnum

Eftir fyrstu þrjár vikurnar eru komnir 7.025 fiskar á land í Veiðivötnum. Þriðja veiðivikan var ein af þeim bestu frá upphafi skráninga.

Í 3. vikunni veiddust 2.842 fiskar, 1.522 bleikjur og 1.320 urriðar. Þetta er fjórða besta veiði í þriðju veiðiviku frá upphafi skráninga. Litlisjór gaf flesta fiska í þessari viku, 1.004 urriða en 700 bleikjur komu úr Nýjavatni og 614 fallegir fiskar komu á land í Snjóölduvatni. Veiðimenn sjá mikið af fiski í Snjóölduvatni og margir komu þaðan með stóra og fallega fiska.

Á nokkrum stöðum eru enn miklar snjóhengjur út í vötn. Hengjurnar geta verið stórhættulegar. Af og til hrynur úr þeim sem hefur orsakað talsverðar flóðbylgjur og einnig er hættulegt að standa á sköflunum vegna hrunhættu. Veiðimenn eru því hvattir til að fara varlega í nágrenni við hengjurnar. Einkum er varað við hengjum við Litlasjó.

Flestir vegir eru þurrir og vel færir. Ófært er í Krókspoll og í Skyggnisvatn. Talsvert vatn er í ám á svæðinu en vel fært fyrir jepplinga. Leiðbeiningaskilti beina umferð frá ófærum slóðum.

Menn eru hvattir til að virða reglur um utanvegaakstur, halda sig við færa vegarslóða, og ganga að vötnunum frekar en að reyna að aka ófæra vegi.

Sjá nánar á heimasíðu Veiðivatna

Fyrri greinÓvenju góð netaveiði
Næsta greinKvöldvaka á bryggjunni í kvöld