Hætta á eðjuflóðum undir Eyjafjöllum

Almannavarnir ríkissins eru í viðbragðsstöðu vegna vonskuveðurs sem spáð er á landinu í nótt og á morgun. Hætta er á eðjuflóðum undir Eyjafjöllum.

Veðurstofan varar við stormi og spáir mikilli úrkomu á suðaustanverðu landinu og vindhraða upp á allt að 25 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum í fyrramálið. Nú þegar er tekið að hvessa hressilega á Suðurlandi, en úrkomusvæði nálgast úr suðri og mun ganga yfir allt land.

Vindhviður upp á þrjátíu metra á sekúndu mælast nú í Öræfum, undir Eyjafjöllum og á Kjalarnesi.

Búast má við snjókomu og skafrenningi í kvöld en svo rigningu þegar hratt hlýnar í veðri í nótt. Úrhelli verður suðaustanlands fram eftir degi á morgun og mikið hvassviðri, og má búast við miklum vatnavöxtum á svæðinu í kjölfarið.