Bæjarráð Árborgar samþykkti í morgun að falla frá áformum um sölu Pakkhússins, enda komu ekki ásættanleg tilboð í húsið.
Bæjarráð samþykkti að setja húsið á sölu í lok október í fyrra en það er í eigu Árborgar og Borgarþróunar ehf. sem er félag í eigu Sveitarfélagsins Árborgar og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.
Pakkhúsið hýsir Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands, ungmennahúsið Pakkhúsið og félagsmiðstöðina Zelzíus.
Sveitarfélagið eignaðist allt Pakkhúsið snemma sumars árið 2007 þegar það keypti þann hluta hússins sem hýsti skemmtistaðinn Pakkhúsið og Pizza 67 af Gunnari B. Guðmundssyni. Ásett verð á þeim hluta hússins var á sínum tíma 57 milljónir króna en sveitarfélagið átti fyrir þann hluta hússins sem hýsir Jarðskjálftamiðstöðina.
Húsið var þá víkjandi á skipulagi og vildu bæjaryfirvöld rífa það til þess að rýma fyrir uppbyggingu í miðbænum. Um tvöþúsund íbúar í sveitarfélaginu skrifuðu undir mótmæli gegn því að húsið yrði rifið.
Kaupfélag Árnesinga lét byggja Pakkhúsið árið 1941.