Hæstiréttur mildaði dóm héraðsdóms

Hæstiréttur mildaði í dag dóm yfir konu sem kastaði glasi í höfuð lögreglukonu á Selfossi í nóvember árið 2009. Héraðsdómur Suðurlands hafði áður dæmt konuna til fangelsisvistar.

Héraðsdómur Suðurlands hafði áður dæmt konuna, sem er 23 ára gömul, í 8 mánaða fangelsi, þar af 6 skilorðsbundna en Hæstiréttur tók tillit til ungs aldurs konunnar og hreins sakarvottorðs hennar auk þess sem afleiðingar brotsins voru ekki alvarlegar. Átta mánaða fangelsisdómur var því allur skilorðsbundinn en konunni var hins vegar gert að greiða lögreglukonunni 100 þúsund krónur í bætur.

Konan krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi vegna þess að sýslumaðurinn á Selfossi hafi sem lögreglustjóri verið vanhæfur til að stjórna rannsókn málsins. Hæstiréttur taldi hins vegar, að ekkert hefði komið fram sem valdi því að draga mætti með réttu í efa óhlutdrægni sýslumannsins eða þeirra lögreglumanna, sem unnu að rannsókn málsins.