Hæsta einkunn á stúdentsprófi í sögu skólans

Menntaskólanum að Laugarvatni var slitið í gær og þar voru 35 stúdentar brautskráðir af þremur námsbrautum.

Hæstu einkunn á stúdentspróf og jafnframt þá hæstu í sögu skólans, hlaut Jón Hjalti Eiríksson frá Gýgjarholtskoti í Biskupstungum, 9,78. Hann útskrifaðist af náttúrufræðabraut. Þetta er því athyglisverðara af þeirri ástæðu að um er að ræða vegið meðaltal allra einkunna Jóns Hjalta á þeim fjórum árum sem námið stóð. Næst hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Herdís Anna Magnúsdóttir frá Hveratúni í Laugarási, 9,16, einnig af náttúrufræðabraut.

Enn eitt afrekið er ótalið, en systir Jóns Hjalta, Þjóðbjörg Eiríksdóttir, lauk námi sínu í 1. bekk með aðaleinkunninni 9,9. Fyrir tveimur árum lauk bróðir Jóns Hjalta, Ögmundur, prófi frá skólanum með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin, en Jón Hjalti bætti lítillega við það, eins og áður getur.

Á skólaslitadegi streyma júbílantar að úr öllum áttum til að rifja upp ljúfa tíma á Laugarvatni. Þeir komu, að vanda færandi hendi. Í gærkvöld sátu þeir hátíðarkvöldverð og í dag koma þeir við hjá skólameistarahjónunum í morgunkaffi áður en aftur er haldið heim á leið.

Fram kom í annál Páls M. Skúlasonar, aðstoðarskólameistara, að skólinn var fullsetinn í vetur og komust færri að en vildu. Alls hófu 171 nám sl. haust og 165 gengust undir vorannar- og stúdentspróf.

Fyrri greinDrengurinn látinn
Næsta greinEnginn skóli á Klaustri og Hvolsvelli