Hækkun virðisaukaskatts bitnar harkalega á Hvergerðingum

Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar hvetur ríkisstjórn Íslands til að hverfa frá hugmyndum um fyrirhugaðar skattahækkanir á ferðaþjónustuna í landinu.

Í ályktun sem var samþykkt af fulltrúum meirihlutans í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar í síðustu viku segir að í stað þess að veikja rekstrarumhverfi hinnar ungu en ört vaxandi atvinnugreinar væri meiri ástæða til að tryggja öruggt og stöðugt rekstrarumhverfi sem stuðlað gæti að aukinni uppbyggingu og fjárfestingu.

“Þannig myndi skattstofn innan ferðaþjónustunnar styrkjast og skila til lengri tíma mun meiri skatttekjum til ríkissjóðs heldur en óábyrg ákvörðun um hækkun virðisaukaskattshlutfalls mun nokkurn tíma gera,” segir í ályktuninni.

Bæjarstjórnin segir ferðaþjónustuna eina af grundvallaratvinnuvegum Suðurlands en með vaxandi ferðamannastraumi hafi ferðaþjónustufyrirtæki farið í auknar fjárfestingar í þeirri trú að hægt verði að byggja upp fyrirtækin í stöðugu rekstrarumhverfi.

“Hækkun virðisaukaskatts mun augljóslega setja slík áform í uppnám og mun hafa mjög alvarleg áhrif á rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og bitna þannig harkalega á atvinnulífi hér í bæ sem annars staðar á landinu,” segir meirihlutinn í ályktun sinni.