Gylfi ráðinn kennslustjóri – þrjátíu fangar í námi

Gylfi Þorkelsson, kennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands, hefur verið ráðinn kennslustjóri í fangelsunum á Litla Hrauni og Sogni. Gylfi tekur við starfinu af Ingis Ingasyni.

„Starfið leggst mjög vel í mig. Þetta er krefjandi og spennandi starf og í því felast miklir þróunarmöguleikar. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi menntunar fyrir fanga til að greiða för þeirra aftur út í samfélagið. Þetta er víðáttumikill, óplægður akur, þó gott starf hafi vissulega verið unnið við þröngan kost, raunar ótrúlega gott miðað við aðstæður,“ sagði Gylfi í samtali við Sunnlenska.

„En framþróunin veltur að miklu leyti á fjárveitingavaldinu, skilningi á því að háar fjárhæðir sparast því fleiri sem ná að koma undir sig fótunum í samfélaginu og því færri sem koma aftur í fangelsi, að aukin framlög í þennan málaflokk munu spara þjóðfélaginu mikla peninga. Fyrir nú utan það sem mestu máli skiptir, að einstaklingarnir sem um ræðir öðlast betra líf.“

Gylfi þekkir vel til kennslu í fangelsum en hann hefur kennt í þeim í tvo áratugi. „Ég hef kennt í fangelsunum alveg frá fyrstu árum mínum við Fjölbrautaskóla Suðurlands, er íslenskukennari og hef alla tíð sinnt allri íslenskukennslu á Litla-Hrauni, í Bitru og á Sogni, utan eins árs þegar ég var í námsleyfi. Að langmestu leyti hefur gengið mjög vel og þetta verið skemmtileg vinna. Á önninni sem er að hefjast eru alveg um þrjátíu nemendur skráðir í eitthvert nám, langflestir á Litla-Hrauni, sumir í einn eða tvo áfanga en aðrir í fleiri. Kennararnir sem að koma eru á annan tuginn, sumir fara á staðinn en aðrir eru með nemendur í fjarnámi,“ segir Gylfi.

Gylfi segir tvennt ólíkt að kenna í dagskólanum á Selfossi og í fangelsunum. „Ekki vegna þess að fangarnir séu í stórum dráttum eitthvað öðruvísi nemendur, allir nemendur eru bara mismunandi manneskjur með kostum sínum og göllum, heldur vegna þess að í dagskólanum fáum við stóran hóp, 25 til 30 manns í tiltölulega litlu rými, sem á að læra sama námsefnið, þrisvar í viku í þrjá, fjóra mánuði. Í fangelsunum eru 5-15 nemendur í stofunni, kannski hver í sínum áfanganum, alla vega hver á sínum stað í námsefninu, svo kennslan verður persónulegri. Möguleikarnir á einstaklingsmiðuðu námi, sem krafa er gerð um í lögum, eru miklu betri. Það er raunhæfara að aðstoða hvern og einn í samræmi við þarfir heldur en í stóru hópunum, þar sem nemendur eru líka mjög misvel staddir,“ segir Gylfi ennfremur.

Fyrri greinTuttugu og þrír vilja stýra Kötlu jarðvangi
Næsta greinEgill Eiríksson í Selfoss