Gunnar vill kjördeild „fyrir utan á“

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi D-lista, lagði það til á fundi bæjarráðs Árborgar í gær að opnuð verði kjördeild „fyrir utan á“ laugardaginn 18. ágúst, þegar kosið verður um aðal- og deiliskipulag miðbæjar Selfoss

Ef það verði ekki mögulegt, verði leitað annarra leiða til að gera íbúum þar kleift að nýta kosningarétt sinn.

Ölfusárbrú verður lokuð frá 13. til 20. ágúst vegna viðgerðar sem þýðir að hún er lokuð á kosningadaginn. Hverfið „fyrir utan á“, eins og Selfyssingar kalla það, er á Langanesi, norðan Ölfusár.

„Ljóst er að lokunin gerir íbúum í hverfinu fyrir utan á erfitt fyrir að nýta kosningarétt sinn og getur haft áhrif á gildi kosninganna. Nauðsynlegt er að bregðast við því með því að opna þar sérstaka kjördeild eða leita annarra leiða til að gera íbúum þar mögulegt að nýta kosningarétt sinn á kjördag, s.s. með því að semja við sýslumann um að hafa opið fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu fyrir „utan á“ á laugardeginum,“ segir Gunnar í greinargerð með tillögunni.

Bæjarráð fól framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að vinna áfram að málinu í samræmi við erindið.

Fyrri greinÞorbjörg ráðin sveitarstjóri í Mýrdalnum
Næsta greinSuðurlandsvegur lokaður vegna umferðarslyss