Gunnar ráðinn prestur á Selfossi

Gunnar Jóhannesson. Ljósmynd/kirkjan.is

Kjörnefnd Selfossprestakalls kaus Gunnar Jóhannesson í starf prests í prestakallinu. Sex umsækjendur voru um starfið.

Biskup hefur staðfest ráðningu Gunnars en í samræmi við breytingar sem hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er Gunnar ráðinn ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.

Gunnar er fæddur á Akranesi árið 1977. Hann lauk embættisprófi í guðfræði árið 2002 og tók við embætti sóknarprests í Hofsóss- og Hólaprestakalli árið 2004. Því starfi gegndi hann til ársins 2013. Árið 2014 fluttist hann með fjölskyldu sinni til Noregs og þjónaði þar sem sóknarprestur í Ringebu í Hamarbiskupsdæmi fram til loka ágúst 2018.

Frá september 2018 til 31. nóvember 2019 þjónaði hann sem settur prestur í Hveragerðisprestakalli og frá 1. desember 2019 hefur hann þjónað sem settur prestur í Selfossprestakalli.

Sr. Gunnar er kvæntur Védísi Árnadóttur, kennara, og eiga þau fjögur börn.

Í Selfossprestakalli, eru fjórar sóknir, hver með sína sóknarkirkju, þ.e. Selfosssókn, Laugardælasókn, Hraungerðissókn og Villingaholtssókn. Í prestakallinu starfa sóknarprestur og prestur, auk þess sem héraðsprestur hefur starfað við prestakallið. Sóknarbörnin eru 9.246 talsins.

Fyrri greinKörfuboltaleik frestað vegna hugsanlegs smits
Næsta greinÞórsarar ekki í úrslitakeppnina