Gunnar Örn skipaður lögreglustjóri

Gunnar Örn Jónsson hefur verið skipaður í embætti lögreglustjóra á Norðurlandi vestra frá 1. apríl næstkomandi og afhenti Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, honum skipunarbréf í dag.

Embættið var auglýst í janúar og rann umsóknarfrestur út 30. janúar. Níu manns sóttu um embættið og ein umsókn til viðbótar var dregin tilbaka.

Gunnar Örn útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og öðlaðist málflutningsréttindi 2005. Þá hefur hann sótt ýmis námskeið hjá Lögregluskóla ríkisins og lokið námskeiði í aðgerðastjórnun almannavarna.

Gunnar hefur m.a. starfað hjá sýslumanns- og lögreglustjóraembættinu á Selfossi og síðar lögreglustjóranum á Suðurlandi frá 2004 og þar af sem staðgengill sýslumanns og síðar lögreglustjóra frá árinu 2008 og sem yfirmaður ákærusviðs embættisins frá 2015.