Gunnar Örn áfram sveitarstjóri

Gunnar Örn Marteinsson verður áfram sveitarstjóri og oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Fyrsti fundur sveitarstjórnar var í dag og þar var þetta samþykkt. Jón Vilmundarson verður varaoddviti.

Í bókun hreppsnefndar kemur fram að núverandi launasamningur við Gunnar Örn framlengist þar til annar verður lagður fram.

Oddur Guðni Bjarnason, fulltrúi minnihlutans í N-listanum, lét bóka að með gegnsærri og opinni stjórnsýslu hefði átt að auglýsa og ráða faglega í stöðu sveitarstjóra þar sem allir hafi jafnt og hlutlaust aðgengi að sveitarstjórninni.