Gunnar Marel nýr formaður

Gunnar Marel Hinriksson er formaður nýrrar stjórnar Sögufélags Árnesinga sem kosin var á aðalfundi í síðustu viku.

Aðsókn var góð á aðalfundinn sem fram fór fimmtudaginn 18. nóvember í Húsinu á Eyrarbakka. Fyrir fundinum lágu venjuleg aðalfundarstörf og lagabreytingar.

Fram kom í máli fráfarandi formanns Þorsteins Tryggva Mássonar að útgáfa Árnesings hefði frestast um eitt ár en Árnesingur XI er væntanlegur í vor. Í fyrra gaf félagið út tvær bækur, Árnesing X og Vökulok. Síðarnefnda bókin er handrit sem félagið gaf út í samstarfi við Ólaf Halldórsson handritafræðing frá Króki. Sala þessara rita hefur gengið með ágætum og stendur félagið vel, eins og fram kom í máli fráfarandi gjaldkera Ingu Láru Baldvinsdóttur þegar hún gerði grein fyrir reikningum félagsins. Tillaga að lagabreytingu fráfarandi stjórnar um fækkun stjórnarmanna úr sjö í fimm var samþykkt.

Þá var ný stjórn kosin. Undan endurkjöri báðust Bjarni Einarsson, Inga Lára Baldvinsdóttir og Skúli Sæland. Lagði fráfarandi formaður Þorsteinn Tryggvi fram lista þeirra sem gefið höfðu kost á sér. Þeir voru auk hans Elín Gunnlaugsdóttir, Gunnar Marel Hinriksson, Hannes Stefánsson og Njörður Sigurðsson. Engin mótframboð bárust og var listinn samþykktur en stjórn skipar sjálf með sér verkum. Elín er ný í stjórn. Gunnar Marel er formaður, Þorsteinn Tryggvi gjaldkeri og Hannes ritari nýrrar stjórnar. Njörður er formaður ritstjórnar Árnesings. Öllum ábendingum um efni í Árnesing er vel tekið og má senda þær á netfangið sogufelag.arnesinga@gmail.com.

Að aðalfundarstörfum loknum flutti Gunnar Marel fyrsta fræðsluerindi vetrarins sem nefndist „Lamblausar ær, mjög lasnar kýr og hestar að litlu liði“ og fjallaði það um kvikfjártalið 1703 og landbúnað í Árnessýslu við upphaf 18. aldar.

Tveir fræðslufundir verða á vormisseri auk aðalfundar og verða þeir auglýsir síðar. Allir eru velkomnir á fundi félagsins hvort sem þeir eru í félaginu eða ekki.
Áhugasamir eru þó hvattir til að ganga í félagið og geta gert það með því að senda okkur tölvupóst eða leggja inn skilaboð síðu félagsins á Facebook, http://www.facebook.com/Sogufelag.Arnesinga

Fyrri greinTryggvi Hjalta: Góðri stjórnarskrá þarf ekki að umbylta!
Næsta greinVonast eftir sátt um færslu fljótsins