Gunnar bíður eftir flugi

Gunnar Egilsson, pólfari, og félagar hans í Moon Regan TransAntarctic Expedition bíða nú færis í Punta Arenas í Chile að flugfært verði á Suðurskautslandið.

Hópurinn hefur dvalið í Punta Arenas síðustu fimmtán daga við undirbúning en síðustu fimm dagar hafa farið í að bíða eftir því að flugfært verði á Suðurskautslandið. Síðustu daga hafa verið verstu veðurskilyrði í þrettán ár á Suðurskautslandinu, miðað við árstíma, og þar á bæ hafa menn unnið sleitulaust að því að ryðja flugbrautina. Allt útlit var fyrir að hópurinn gæti lagt í hann í kvöld þar sem aðstæður á Suðurskautslandinu eru orðnar góðar en þá var of vindasamt í Punta Arenas.

„Við vorum mjög nálægt því að fljúga á ísinn í dag en þá fór að hvessa hér. Það er ekki lagt upp í flugið nema það sé gott veður bæði í Punta Arenas og á Union Glacier, svo vélin komist strax á loft aftur og til baka,“ sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is í kvöld.

Leiðangurinn þarf tvær flugferðir á Suðurskautslandið og hvert flug tekur 12 tíma fram og til baka. Gunnar segir engan veginn hægt að segja til um hvenær leiðangursmenn snúi heim úr þessu en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að Gunnar næði Þorláksmessuskötunni.

„Þetta fer algjörlega eftir veðri og færi. En ferðin verður kláruð ef þess er nokkur kostur, þó að það þýði lengri veru á ísnum. Við krossum alla putta þessa dagana og vantar fleiri putta til að krossa,“ sagði Gunnar léttur í bragði og bað fyrir bestu kveðjur heim.