Gunnar áfram formaður SASS

Gunnar Þorgeirsson, oddviti í Grímsnes- og Grafningshreppi, var endurkjörinn formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á fundi SASS á dögunum.

Gunnar var fyrst kjörinn formaður fyrir tólf árum og var þá formaður samtakanna í fimm ár, þar til hann tók sér hlé í tvö. Gunnar var svo endurkjörinn og er að hefja fimmta árið aftur sem formaður SASS.

Gunnar sagði í samtali við Sunnlenska að megin verkefni samtakanna væri baráttan fyrir almenningsamgöngum, það er sértækri löggjöf til stuðnings þeim, svo sem Strætó.

„Svo er það vinnan að sóknaráætlun landshlutans og styrkja samstarf við stofnanir sem við gerðum samninga við í byrjun árs,“ segir Gunnar og á þar við Nýheima, fræðslunetið, Háskólafélagið, Markaðsstofu Suðurlands og Þekkingarsetur Vestmannaeyja.

Tveir nýir komu inn í stjórn að þessu sinni, Lilja Einarsdóttir, oddviti í Rangárþingi eystra kom í stað kollega síns, Ágústs Sigurðssonar í Rangárþingi ytra, og Eva Björk Harðardóttir, oddviti í Skaftárhreppi kom inn í stað Elínar Einarsdóttur, oddvita í Mýrdalshreppi. Þar með urðu konur fleiri en karlar í stjórninni í fyrsta sinn, eru flmm af níu.

Fyrri greinNánast fullkomið birkitré í Þórsmörk
Næsta greinMeiriháttar góð kasjúhnetusósa