Gullin tækifæri til umbóta

Stjórnendur á HSU ásamt Magnúsi Hlyni í skoðunarferð um miðbæ Selfoss. Ljósmynd/Aðsend

Yfir fjörutíu stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands komu saman í síðustu viku á árlegri vinnustofu sem ber yfirheitið Stjórnendadagar.

Þetta er fimmta árið í röð sem stjórnendur deilda HSU koma saman á vinnustofu. Lykilþema stjórnendadaga í ár var stefnumótun, fjármál og mannauður og erindin lituð af þeim.

Forstjóri HSU, Díana Óskarsdóttir, kynnti framtíðarstefnu HSU til ársins 2030 og út frá henni hófst stefnumótunarvinna meðal stjórnenda í litlum hópum. Í frétt frá HSU segir að afbragðs góðar umræður hafi skapast og fullt af tækifærum litið dagsins ljós, sem unnið verður áfram með. Jafnframt verður horft til hugmynda starfsfólks og hagaðila stofnunarinnar sem skipta sköpum í áframhaldandi mótun stefnunnar.

Margrét Björk Svavarsdóttir, fjármálastjóri, fór yfir rekstrarmál og kynnti þau verkfæri sem eru til. Thelma Gunnarsdóttir, yfirsálfræðingur, kynnti fyrir hópnum nýtt fyrirkomulag í sálfræðiþjónustu og sagði frá spennandi fjögurra ára samstarfsverkefni milli HSN, HVE og HSU.

Stjórnendur fengu líka fyrirlestur frá Mental um geðheilbrigði á vinnustað, ásamt öðrum erindum og að lokum var farið í heimsókn á Móberg.

„Á þessum dögum myndast gullin tækifæri til umbóta þvert á stofnunina og sú samvinna sem myndast ýtir enn frekar undir tengsl milli deilda, stjórnenda og starfsstöðva,“ segir í fréttinni frá HSU.

Fyrri greinFrístunda- og íþróttahlaðborð í Uppsveitunum
Næsta greinIngólfsfjall skelfur við Tannastaði