Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland sem tekur gildi klukkan 23 á mánudagskvöld og ekki er útlit fyrir annað en að hún verði í gildi alveg fram á fimmtudagskvöld.
Aðfaranótt þriðjudags og allan þriðjudaginn er gert ráð fyrir hvassri norðanátt, 13-20 m/sek með vindstrengjum við fjöll og varasömu ferðaveðri fyrir ökutæki sem taka á sig vind. Þá er fólk beðið um að huga að lausamunum sem geta fokið. Ekki er útlit fyrir að lægi neitt að ráði fyrr en á fimmtudagskvöld.
Á suðausturlandi og miðhálendinu er í gildi appelsínugul viðvörun frá kl. 19 á mánudag og allan þriðjudaginn en þá tekur við gul viðvörun fram á fimmtudag. Á miðhálendinu er gert ráð fyrir snjókomu og þar verður ekkert ferðaveður og er útivistarfólk varað við kulda og vosbúð.