Gul viðvörun vegna rigningar og hvassviðris

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna rigningar á Suður- og Suðausturlandi á fimmtudagskvöld og fram á föstudagsmorgun.

Gert er ráð fyrir mikilli rigningu og búast má við vatnavöxtum í ám og lækjum og mögulega staðbundin flóð sem geta valdið samgöngutruflunum.

Auknar líkur eru á skriðuföllum og grjóthruni í bröttum hlíðum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Viðvörunin gildir frá klukkan 19 á fimmtudag, til klukkan 6 á föstudag á Suðurlandi en á Suðausturlandi er viðvörunin í gildi frá 18 á fimmtudag til 14 á föstudag.

Á föstudaginn tekur svo við gul viðvörun á Suðurlandi milli kl. 11 og 18 vegna suðaustan hvassviðris. Vindur getur verið varasamur fyrir ökutæki, sérílagi þau sem eru viðkvæm fyrir vindi. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Fyrri greinÞarfagreining
Næsta greinAdólf og Njörður taka við Árborg