Gul viðvörun: Stormur og asahláka

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir Suðurland sem gilda frá klukkan 4 aðfaranótt föstudags, til klukkan 10 á laugardagsmorgun.

Framan af föstudagsmorgni er gert ráð fyrir suðaustan hvassviðri eða stormi, 15-23 m/sek og snjókomu, einkum á fjallvegum. Síðan hlýnar og fer að rigna á láglendi og síðar einnig á fjallvegum. Búast má við mikilli hálku eftir að það hlýnar.

Klukkan 11 á föstudagsmorgun tekur við viðvörun vegna asahláku þar sem búist ef við talsverðri rigningu. Þá snýst hann í sunnan 10-15 m/sek og allt að 9 stiga hita.

Búast má við talverðu afrennsli vegna úrkomu og snjóbráðnunar og vexti í ám og lækjum. Ísilagðar ár geta rutt sig og fólk er hvatt til að sýna aðgát vegna þess.

Þá er fólki bent á að huga að niðurföllum, til að vatn komist leiðar sinnar í fráveitukerfi – og auðvitað að passa sig á flughálku sem líklega mun myndast á blautum klaka.

Á suðausturlandi gildir viðvörun vegna asahláku frá kl. 11 á föstudagsmorgun til klukkan 14 á laugardag.

Fyrri greinFSu mætir Flensborg í sjónvarpinu
Næsta greinSr. Arnaldur fer austur