Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland sem gildir frá miðnætti og fram yfir hádegi á morgun. Gert er ráð fyrir hvassviðri og talsverðri snjókomu.
Spáð er austan hvassviðri með vindhraða á bilinu 10-20 m/sek, hvassast við sjóinn. Búast má við talsverðri snjókomu með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, einkum til fjalla. Afmarkaðar samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar, einkum á Hellisheiði. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Á Suðausturlandi gildir viðvörunin frá kl. 3 í nótt til kl. 14 á fimmtudag. Þar er búist við austan hvassviðri eða stormi með vindhraða á bilinu 15-23 m/sek, hvassast í kringum Öræfajökul. Búast má við talsverðri eða mikilli snjókomu, einkum í kringum Vatnajökul og á Reynisfjalli með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum og eru afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar.