Gul viðvörun: Líklegt að vegum verði lokað

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun sem gildir fyrir Suðurland frá hádegi á sunnudag til miðnættis.

Á Suðausturlandi gildir viðvörunin frá kl. 15 á sunnudag og fram til klukkan 4 á mánudagsmorgun.

Gert er ráð fyrir austan stormi, 18-28 m/sek og búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/sek, einkum undir Eyjafjöllum og í Öræfum.

Varasamt verður að vera á ferðinni á ökutækjum með aftanívagna, eða ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Snjókoma til fjalla
Einnig má búast við snjókomu til fjalla með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Líklegt þykir að truflanir verði á samgöngum og að vegum verði lokað. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Fyrri greinJólasleðanum stolið úr nýja miðbænum
Næsta greinAllir flottir í Iðu í kvöld